top of page
Svuntuaðgerð_2x.png

Svuntuaðgerð

Hvers vegna svuntuaðgerð?

Af ýmsum ástæðum missir húðin teygjanleika sinn og getur virkað slöpp og hangandi.

Þegar þetta gerist á kviðnum þá líkist húðfellingin sem hangir framan á kviðnum svuntu og þessvegna köllum við aðgerðina svuntuaðgerð.

Algengast er að þessar breytingar verði á líkamanum eftir meðgöngu eða eftir mikið þyngdartap.

Þessar aðgerðir eru einnig gerðar annars staðar á líkamanum svo sem á upphaldleggjum og fótleggjum.

Undirbúningur fyrir aðgerð

 • Fasta frá miðnætti aðgerðardags.
   

 • Við mælum með að sleppa lýsi og omega 3 fitusýrum í viku fyrir aðgerð. Einnig að sleppa bólgueyðandi verkjalyfjum í a.m.k 5 daga fyrir aðgerð því þessi lyf eru blóðþynnandi.
   

 • Komdu í þægilegum víðum fötum og skóm sem auðvelt er að smeygja sér í og úr. 
   

 • Farðu í sturtu að morgni aðgerðardags. Sleppa alveg að bera rakakrem á líkamann.
   

 • Komdu með stuðningsbelti fyrir kviðinn sem þú getur keypt í apóteki eða öðrum sérverslunum. 
   

 • Fáðu einhvern til að sækja þig, því aðgerðin er gerð í svæfingu og þú mátt ekki keyra bíl eftir hana. Einnig er ekki ráðlegt að vera einn/ein heima fyrsta daginn eftir aðgerð.

 

Hvernig fer aðgerðin fram?

Aðgerðin er gerð í svæfingu og tekur á bilinu 2-3 klukkustundir.

Þegar aðgerð er gerð á stórri svuntu er gerður skurður sem nær á milli mjaðmakamba og undirlag húðarinnar er losað frá kviðvegg upp að bringubeini.

Síðan er strekkt á húðinni, aukahúð fjarlægð og nafli færður í eðlilega stöðu. Ef kviðveggur er slappur er strekkt á honum með saumum.

 • Í minni svuntum er skurðurinn mun styttri.
   

 • Samhliða svuntuaðgerð er oft framkvæmt fitusog.
   

Þar sem yfirborð sársins er mjög stórt myndast sáravökvi sem þarf að geta runnið frá sárinu. Til þess eru notuð „dren“ (slöngur) sem eru látnar vera í allt að eina viku eftir aðgerð.

 

Bataferlið

Þú ert hjá okkur í nokkra klukkutíma eftir  að aðgerð er lokið.

Þegar þú ert sótt/ur þá er mikilvægt að sá/sú sem kemur að sækja þig, komi upp til okkar á sjöttu hæð og fylgi þér út í bíl. Þú átt verkjalyf í gáttinni sem þú getur sótt í apótekið á leiðinni heim.

Fótahreyfingar og rólegheit

Taktu því mjög rólega, sérstaklega fyrstu 2-3 dagana eftir aðgerð. Gott að gera fótapumpuæfingar, rétta og kreppa fæturna, í sófanum eða upp í rúmi.

Drekktu vel, sérstaklega fyrsta sólahringinn, því það er mikið vökvatap sem fylgir þessum aðgerðum.

Drenin

Fylgstu mjög vel með drenum, þú þarft að tæma bombuna einu sinni til tvisvar á dag, gott að skrá niður magnið en það eru mælieiningar á pokunum. 

Hvaða verkjalyf fæ ég? 

Venjulega er þörf á sterkum verkjalyfjum (Parkódin eða Parkódin forte) í 1-3 daga, eftir það geta flestir skipt yfir í venjulegt parasetamól (Panodíl eða Paratabs) og tekið í 2-3 daga til viðbótar.

Hversu mikið má ég hreyfa mig?

Eftir 2-3 daga mátt þú og átt að hreyfa þig upp að sársaukaþröskuldi en þarft þó  að passa að teygja ekki um of á kviðnum. Slík hreyfing er til dæmis að ganga um heima hjá þér og fara út, varlega en ekki ef það er hálka eða erfitt yfirferðar. 

Kviðveggurinn kemur til með að vera svolítið strekktur í byrjun sem gerir það að verkum að þægilegra er að ganga svolítið hokinn fyrstu dagana.

Stuðningsbelti

Við setjum á þið stuðningsbeltið eftir aðgerðina og þú ert með það í 6-8 vikur eftir aðgerð.

Hvenær er endurkoma eftir aðgerð?

Eftir 5-7 daga kemur þú í endurkomu og við tökum umbúðir af (þær eiga að vera óhreyfðar þar til).

Drenin eru svo tekinn eftir sirka 7 daga, en að er metið eftir því hversu mikið er að koma í þau.

Hvenær má ég fara í sturtu?

Þú mátt fara í sturtu eftir að umbúðir og dren eru farin en forðastu að liggja í baði þar til öll sár eru gróin. 

Hvenær má ég fara í líkamsrækt?

Þú mátt fara í ræktina eftir 6 vikur en ef magavöðvar eru saumaðir þá þaftu að bíða í 3 mánuði.

Hvenær má ég fara aftur að vinna? 

Flestir eru komnir til vinnu eftir 3 vikur, þá miðað við skrifstofu vinnu.

Hvað með örin? 

Gott er að nota brúnan bréfplástur (micropore 3 M) á sárið í 6 mánuði eftir aðgerðina til að örið verði sem minnst áberandi. Ef þú þolir ekki þann plástur má nota silicon krem eða plástur í staðinn. Örið skal verja fyrir sólinni í 12 mánuði eftir aðgerð eða þar til örin eru orðin hvít.

Hvað eru sjaldgæfar aukaverkanir eftir aðgerð? 

Sjaldgæfar aukaverkanir eftir svuntuaðgerðir er aðallega blóðtappi og lungnabólga. Við leggjum áherslu á að gott er að koma í stuðningssokkum (flugvélasokkum) í aðgerðina, vera dugleg/ur að gera fótapumpuæfingar á vöknun og áfram þegar heim er komið. Muna svo eftir öndunaræfingum, anda djúkt, fylla lungun af lofti og blása hægt frá sér. 

bottom of page