top of page
Blettir_2x.png

Blettir

Hvenær er ástæða til að fjarlægja bletti?

Oft er ástæða til að fjarlægja bletti í húðinni. Yfirleitt er um að ræða nýtilkomna bletti eða bletti sem hafa breyst nýlega. Blettir geta verið undanfari húðkrabbameins og því er mikilvægt að fylgjast vel með þeim.

Heimilislæknir eða sérfræðingar í húðsjúkdómum eru vanir að meta hvort ástæða er til að fjarlægja blettina. Stundum eru blettir á óþægilegum stað til dæmis blettir í andliti (geta blætt við rakstur).  Blettir geta jafnframt verið lýti og fólk vill losna við þá þess vegna.

 

Undirbúningur og hvernig aðgerð fer fram

Við mælum með því að sleppa lýsi og omega3 fitusýrum í viku fyrir aðgerð.


Slepptu einnig því að taka bólgueyðandi verkjalyf í a.m.k fimm daga fyrir aðgerð.

Mikilvægt er að fara í góða sturtu morguninn en nota ekki  krem, rakakrem eða aðrar snyrtivörur.

Venjulega eru mjög litlir verkir eftir svona aðgerð en hugsanlega þarf að nota verkjalyf í 1-2 daga á eftir.

Eins og eftir allar aðgerðir áttu að taka því rólega einn til tvo daga á eftir til að minnka blæðingarhættu og að bólgan verði sem minnst.

Hvernig fer aðgerðin fram?

Þegar blettir eru fjarlægðir fer það eftir eðli þeirra hvernig það er gert.

Oftast er hægt að fjarlægja blett og loka húðinni beint en stundum þarf að flytja aðlæga húð til að loka sárinu. Þá er húð tekin á lítið áberandi stað og notuð til að loka sárinu.

Blettirnir eru síðan lagðir í formalin vökva og sendir til rannsóknar. Það getur því tekið allt að fjórum vikum að fá endanlegt svar hvers eðlis bletturinn var og hvort allur bletturinn hafi verið fjarlægður.

Það fer eftir staðsetningu og stærð blettanna hvernig húðinni er lokað. Ef sárið er saumað þá er misjafnt eftir staðsetningunni hversu lengi þeir eru látnir vera. 

  • Blettataka í andliti, saumar teknir eftir u.þ.b. 1 viku
     

  • Blettataka á búk, saumar teknir eftir u.þ.b. 2 vikur
     

  • Blettataka á útlim, saumataka eftir u.þ.b. 2 vikur

 

Stundum nær bletturinn lengra inn á heilbrigða húð en sýnilegt er með berum augum og þá getur þurft að endurtaka aðgerðina til að ná blettinum að fullu.

Aðgerðina er langoftast hægt að gera í staðdeyfingu og þarf sjúklingur þá ekki að vera fastandi.

 

Bataferlið

Ef sárið bólgnar mikið, sárabarmar verða rauðir, hiti eða auknir verkir  gera vart við sig er gott að hafa samband. Þegar blettir eru fjarlægðir kemur ör en skurðurinn er ávallt lagður þannig að örið verði sem minnst áberandi.

 

Plástrar á örin

Til að ná sem bestum árangri, og að örið verði sem minnst sýnilegt, er mælt með því að nota pláturslímband á örið í allt að 6 mánuði. Þetta band kallast Micropore, er framleitt af 3M og fæst í apótekum.

bottom of page